Kastljós Dana beinist enn á ný að Íslandi

Íslenska útrásin og landvinningar íslensks athafnafólks á Norðurlöndum og á Bretlandseyjum eru greinarhöfundum hugleikin í nýju tölublaði DI Business en það er mat þeirra að títtnefnd útrás íbúa eldfjallaeyjarinnar og þróun íslenskra efnahagsmála undanfarið geti valdið titringi utan landsteinana. Í dönskum fjölmiðlum hafa t.a.m. ítrekað birst greinar þar sem því hefur verið spáð að fjárfestingar Íslendinga í fyrirtækjum á borð við Magasin, Illum, Maersk og Royal Unibrew gætu farið illa vegna þensluástands á Íslandi og hárrar verðbólgu. Lise Lyck, lektor við Copenhagen Business School, telur þó umfjöllunina hafa verið á of neikvæðum nótum og efnahagsástand á Íslandi ráði ekki úrslitum um fjárfestingar Íslendinga víða um heiminn, svo lengi sem þeir fjárfesti í greinum og fyrirtækjum sem þeir þekki vel og kunni að reka.

 

Efasemdir Danske Bank

Frægt er álit greiningadeildar Danske Bank á íslensku efnahagslífi en þar fer Lars Christiansen fremstur í flokki greinenda. Hann virðist enn efins um útrás íslenskra fyrirtækja – ekki síst í ljósi aðstæðna á Íslandi. Útrásin sé fjármögnuð með lánsfé sem sé að verða sífellt dýrara og Christiansen sér því fyrir langvinna og djúpa kreppu á Íslandi hvorki meira né minna – stoðir íslensks efnahagslífs séu teknar að bresta. Christiansen segist ekki sjá annað fyrir þar sem stýrivextir á Íslandi séu í hæstu hæðum, verðbólga há og viðskiptahalli gríðarlegur.

 

Ástæðulaust að óttast

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, lítur hlutina ekki sömu augum og hinn danski Christiansen og segir í samtali við DI að ástæðulaust sé að óttast að svartnætti sé framundan í íslensku efnahagslífi. Hannes bendir á að svartsýnin virðist eingöngu bundin við Dani og telur að þróun mála sé í rétta átt. Verðbólga sé á niðurleið og viðskiptaumhverfið sé hagfellt, hér séu lágir skattar, sveigjanlegur vinnumarkaður og góður aðgangur að fjármagni. Einkavæðing ríkisfyrirtækja, aukið frelsi í viðskiptum og skattalækkanir á síðustu 15 árum hafi leyst mikinn kraft úr læðingi í íslensku efnahagslífi. Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, telur þó að rétta þurfi kúrsin af í íslenskum efnahagsmálum. Stýrivextir á Íslandi eru nú 14,25% en í Danmörku eru þeir 3,5%.

 

Sjá nánar greinar DI:

 

Udviklingen på vulkanøen kan give rystelser

 

Åben økonomi har banet vejen