Jafnvægi á vinnumarkaði

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir í ítarlegu viðtali við helgarblað Viðskiptablaðsins að mjög mikilvægt sé að vinnumarkaðurinn sé í eðlilegu jafnvægi. „Þar tökum við eftir því að þær takmarkanir sem eru á aðflutningi sérhæfðs starfsfólks frá löndum utan Evrópusambandsins setur óþarfa hömlur á fyrirtækin. Við teljum að það sé mjög brýnt að gera innflutning sérfræðinga auðveldari. Mörg íslensk fyrirtæki leita eftir menntuðu og öflugu starfsfólki frá Bandaríkjunum, Indlandi, Kína og mörgum öðrum löndum sem er mjög erfitt að útvega atvinnuleyfi og dvalarleyfi fyrir. Þetta skiptir mjög miklu máli núna og mun skipta enn meira máli til dæmis ef við ætlum að stefna að þekkingarútflutningi í orkugeiranum,” segir Vilhjálmur meðal annars.

 

Víða er komið við í viðtalinu og m.a. rætt um gagnrýni á peningamálastefnu Seðlabankans, óeðlilegar hækkanir á fasteignaverði, kraftinn í íslensku atvinnulífi og aukna samkeppnishæfni Íslands. Um kjaraviðræðurnar sem eru framundan segir Vilhjálmur þetta: „Við höfum vissulega hlutverki að gegna. Við megum ekki stofna til launahækkana í kjarasamningum umfram það sem atvinnulífið ræður við án verðbólgu. Ríkið má heldur ekki stofna til umframeftirspurnar í efnahagslífinu við núverandi skilyrði, það snýst um hvort afgangur sé eða halli á ríkisbúskapnum.”

 

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu 31. ágúst - www.vb.is