Íslenskt hugvit á sviði orkunýtingar selt um allan heim

Íslenska fyrirtækið Enex hefur tryggt sér rétt til að virkja jarðhitasvæði á nokkrum stöðum í heiminum og tekur nú þátt í fimm verkefnum m.a. í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Kína, en umfang framkvæmda sem tengjast þessum verkefnum er áætlað allt að 400 milljónir Bandaríkjadala, um tuttugu milljarðar íslenskra króna. Á ráðstefnunni Orkulindin Ísland, kom fram hjá Gunnari Tryggvasyni, fjármálastjóra Enex, að markaðssvæði þeirra væri í raun heimurinn allur, þ.e. þeir hlutar hans þar sem jarðhita væri að finna, á heitum reitum eins og Íslandi en Enex kemur þó einnig að verkefni sem lítur að virkjun lághita í Þýskalandi.

Virkja eldfjall í Alaska

Enex nýtir sér íslenska sérþekkingu til að virkja jarðhitasvæði víða um heim, en meðal verkefna má nefna byggingu jarðvarmavirkjunar í Truckhaven í Kaliforníu sem áætlað er að skili allt að 120 Mw fullbyggð, en Enex á helming í henni á móts við Bandaríkjamenn. Kostnaður er áætlaður 110 milljónir Bandaríkjadala. Fram kom hjá Gunnari að viðræður standi nú yfir við stærstu orkuveitu Kaliforníu um að kaupa raforku frá virkjuninni til næstu 20 ára. Annað spennandi verkefni er að finna í Makushin í Alaska, sjávarþorpi sem stendur við rætur eldfjalls. Þar stendur til að reisa jarðvarmavirkjun en í dag er þorpið kynnt upp með olíu og allt rafmagn er einnig framleitt með olíu sem er bæði dýr og kemur langt að. Með því að virkja jarðvarma eldfjallsins er því hægt að spara mikla fjármuni.

Stærsta hitaveita heims

Í Kína kemur Enex síðan að byggingu stærstu jarðvarmahitaveitu heims, en áætlað er að fyrsti áfangi hennar muni kosta um 20 milljónir evra, en að sögn Gunnars standa nú yfir viðræður við Alþjóðabankann um fjármögnun verksins. 

Sjá vef Enex: http://www.enex.is