Innleiðingu á þjónustutilskipun ESB verði hraðað

Nýrri þjónustutilskipun Evrópusambandsins er ætlað að auðvelda ríkisborgurum á Evrópska efnahagsvæðinu að stofna og reka þjónustufyrirtæki á innri markaði Evrópusambandsins, án þess að slakað sé á kröfum um gæði þjónustunnar. Frjáls þjónustustarfsemi er hluti af fjórfrelsinu sem stefnt er að á innri markaðnum og eru almenn ákvæði um það bæði í Rómarsáttmálanum og EES samningnum.

 

Þjónustutilskipuninni er ætlað að tryggja jafna samkeppnisaðstöðu þeirra sem veita þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu með því að draga úr kröfum sem einstök aðildarríki geta gert og með því að einfalda samskipti við hið opinbera í öðru aðildarríki. Þau eiga að fara fram á einum stað og vera rafræn. Þeim sem veita þjónustu ber að virða reglur þess lands þar sem þjónustan er veitt.Tilskipunin var endanlega samþykkt í desember síðastliðnum og á að vera komin til framkvæmda í aðildarríkjunum EES fyrir árslok 2009.

 

Takmörkuð þjónustuviðskipti milli landa

Í tilskipuninni er bent á að þjónustugeiri atvinnulífsins standi fyrir 70% af efnahagsstarfsemi í aðildarríkjunum en einungis 20% af viðskiptum yfir landamæri sé þjónusta. Þessar tölur eru sláandi og vert að skoða nánar hvað telst til þjónustu og hvaða þjónustu er unnt að veita milli ríkja. Þjónusta banka og upplýsingatæknifyrirtækja hentar til útflutnings, en þjónusta ráðuneyta og skólakerfisins síður svo dæmi séu nefnd. Í skýrslu sem unnin var fyrir SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu af Háskólanum í Reykjavík í ársbyrjun 2006 er að finna yfirgripsmiklar upplýsingar um þjónustugeirann hér á landi, skiptingu hans og hlutverk.

 

Útvistunarstefna ríkisins

Ríkisstjórn Íslands samþykkti um mitt síðasta ár sérstaka útvistunarstefnu ríkisins þar sem sett voru mælanleg markmið um útvistun þjónustu, samhliða áherslu á aukna fræðslu með gerð og eftirfylgni þjónustusamninga. Sú stefnumörkun og endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna þjónustuviðskipta við opinbera aðila, munu auka möguleika þeirra sem veita þjónustu hér á landi.

 

Í grein í Morgunblaðinu 2. mars 2006 fjallaði Eva Margrét Ævarsdóttir lögfræðingur og þáverandi forstöðumaður skrifstofu Samtaka atvinnulífsins í Brussel um hvernig inntak þjónustutilskipunar ESB þróaðist á síðustu stigum gerðar hennar. Greinin skýrir þær umfangsmiklu breytingar sem gerðar voru frá fyrstu tillögu sem ætlað var að gera frjálst flæði þjónustu að veruleika.

 

Hverjum gagnast tilskipunin?

Könnun sem ESB lét gera árið 2002 leiddi í ljós að sértækar kröfur einstakra ríkja til þjónustuaðila væru eru alvarlegar hindranir á frjálsri þjónustusstarfsemi á innri markaðnum. Þeir sem vilja veita þjónustu í öðru EES ríki hafa t.d. iðulega lent á vegg skrifræðis og innlendrar markaðsverndar sem oft á sér sögulegar skýringar. Frumskógur laga og reglna hefur ekki einungis áhrif á seljendur þjónustu heldur einnig þá sem njóta hennar bæði fyrirtæki og neytendur. Mörg fyrirtæki hafa því kosið að veita ekki þjónustu í öðrum ríkjum vegna kostnaðar sem fylgir því að uppfylla alls kyns kröfur en meirihluti þjónustufyrirtækja eru lítil eða meðalstór fyrirtæki. Þau sjá fram á ný sóknarfæri eftir gildistöku þjónustutilskipunarinnar.

 

Réttur til að veita þjónustu tryggður

Aðildarríki EES geta eftir gildistöku þjónustutilskipunarinnar ekki komið í veg fyrir að fyrirtæki innan EES bjóði fram þjónustu sína í viðkomandi ríki. Þau geta gert kröfur til fyrirtækjanna en er einungis heimilt að takmarka þjónustufrelsi á grundvelli alsherjarreglu, almannaöryggis, heilbrigðis- og umhverfisverndar. Skilyrðin þurfa jafnframt að virða meginreglur innri markaðarins um jafnræði, nauðsyn og meðalhóf. Til þess að auðveldara verði að fylgjast með því að þessi ákvæði séu virt verða aðildaríkin að tilkynna og rökstyðja sérkröfur gagnvart framkvæmdastjórn ESB.

 

Hver verða áhrif tilskipunarinnar ?

Með aukinni samkeppni á þjónustumarkaði innan EES eru líkur á að gæði þjónustu aukist og verð lækki. Auðveldara verður að stofna fyrirtæki og auðveldara að veita þjónustu yfir landamæri. Markaðurinn mun því stækka og réttur þjónustuþega styrkist vegna upplýsingaskyldu sem lögð er á. Ákvæði þjónustutilskipunarinnar hafa ekki áhrif á vinnulöggjöf í einstökum ríkjum. Reglur hennar gilda ekki um þjónustu starfsmannaleiga.

 

Innleiðingu verði hraðað á Íslandi

Samtök atvinnulífsins telja þjónustutilskipunina vera mikilvægt skref í átt að skilvirkari innri þjónustumarkaði og hvetja til að hún verði tekin inn í EES samningin svo fljótt sem auðið er. Fyrirtæki á Ísland falla flest í flokk smárra og meðalstórra fyrirtækja. Aukinn markaðsaðgangur fyrir þjónustu skapar þeim tækifæri bæði til að bjóða og kaupa þjónustu. Því er mikilvægt að flýta því sem kostur er að yfirfara innlenda löggjöf og stofnanauppbyggingu með það fyrir augum að framfylgja ákvæðum tilskipunarinnar.