Hjöðnun verðbólgu forgangsmál

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í grein í Fréttablaðinu í dag að hjöðnun verðbólgu hljóti að vera forgangsmál fyrir Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfinguna í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Mikil óvissa ríki um framvindu efnahagslífsins á næsta ári. Fjármálageirinn sem leitt hafi uppganginn í atvinnulífinu hafi orðið fyrir barðinu á samdrætti á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og búast megi við því að það hægi smám saman á atvinnulífinu á fyrri hluta ársins. Vilhjálmur segir vonandi að þá hefjist nýtt uppgangstímabil.

 

Greinina má lesa í heild hér:

Verjum lífskjörin

 

Höfuðmarkmið Samtaka atvinnulífsins í komandi kjarasamningum er að varðveita þann árangur sem náðst hefur í atvinnulífinu og lífskjörum þjóðarinnar og skapa nýjan grunn til framfara. Á árinu 2007 hefur margt gengið vel, fjárfestingar hafa verið miklar, fyrirtækin hafa viljað ráða til sín starfsfólk, kaupmáttur hefur vaxið og atvinnuleysi hefur ekkert verið. Ekki hefur tekist jafn vel til í baráttunni gegn verðbólgunni, fyrst og fremst vegna verðhækkunar íbúðarhúsnæðis og mikilla launahækkana sem voru rúmlega þrefalt meiri en á evrusvæðinu. Vaxtatæki Seðlabankans hefur reynst bitlaust þrátt fyrir ótæpilegar vaxtahækkanir. Fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni hafa þurft að búa við erfið rekstrarskilyrði vegna hás gengis krónunnar.

 

Komið er að endurnýjun kjarasamninga og niðurstaðan  ræður miklu um þróun verðbólgu á næsta ári. Þess vegna hafa Samtök atvinnulífsins sett fram þá stefnu að í kjarasamningunum eigi að nota allt svigrúmið sem atvinnulífið hefur til þess að hækka lágmarkslaun, færa kauptaxta nær greiddum launum og ná til þeirra sem hafa dregist aftur úr í launum að undanförnu. Almennar launahækkanir við núverandi skilyrði yrðu aðeins verðbólgufóður. Flestum starfsmönnum íslenskra fyrirtækja kemur best að ná verðbólgunni eins mikið niður og mögulegt er og það er jafnframt best fyrir atvinnulífið og líklegast til þess að skila árangri fyrir alla.

 

Mikil óvissa er um framvindu efnahagslífsins á næsta ári. Fjármálageirinn sem leitt hefur uppganginn í atvinnulífinu hefur orðið fyrir barðinu á samdrætti á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Búast má við því að það hægi smám saman á atvinnulífinu á fyrri hluta ársins og vonandi verður botninum þá náð og nýtt uppgangstímabil hafið.  Hjöðnun verðbólgu er lykilatriði til þess að minnka óvissu, stytta og draga úr hugsanlegum samdrætti og koma atvinnulífinu aftur á fulla ferð. Hjöðnun verðbólgu hlýtur því að vera forgangsmál fyrir Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfinguna í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir.

 

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, Fréttablaðinu 28. desember 2007.