Háskólinn í Reykjavík og Tækniháskóli Íslands sameinaðir

Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing menntamálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Verslunarráðs Íslands og stjórnenda Háskólans í Reykjavík og Tækni-háskóla Íslands um stofnun nýs háskóla með samruna skólanna tveggja. Stofnað verður einkahluta-félag og verða SA, SI og VÍ hluthafar. Skipuð verður sjö manna stjórn einkahlutafélagsins, sem gegnir jafnframt hlutverki háskóla-ráðs. Stefnt er að því að skólinn taki til starfa haustið 2005. Nýi háskólinn mun bjóða upp á allt það nám sem þegar hefur verið heimilað við núverandi skóla, en auk þess er fyrirhugað er að taka upp nám í verkfræði og kennslufræði. Texti viljayfirlýsingarinnar fer hér á eftir:  

 

 

Viljayfirlýsing um stofnun einkahlutafélags er taki yfir starfsemi Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands.

 

19.10.2004

 

Aðilar að þessari viljayfirlýsingu eru menntamálaráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Verslunarráð Íslands fyrir hönd Sjálfseignar-stofnunar Verslunarráðs Íslands um viðskiptamenntun (SVÍV).

 

Af hálfu ríkisstjórnar er yfirlýsing þessi háð því að Alþingi fallist á þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að af sameiningu Háskólans í Reykjavík (hér eftir nefndur HR) og Tækniháskóla Íslands (hér eftir nefndur THÍ) geti orðið. Verður frumvarp sem inniheldur þær breytingar lagt fram á Alþingi haustið 2004. Fjárskuldbindingar gagnvart hinum nýja skóla (hér eftir nefndur háskólinn) eru háðar samþykki Alþingis skv. fjárlögum.

 

Aðilar eru sammála um að gera þurfi átak til að auka áhuga ungs fólks á raunvísindum og tæknigreinum og tryggja að gæði menntunar á þeim sviðum standist alþjóðlegan samanburð. Hvort tveggja er forsenda framþróunar og aukinnar samkeppnishæfni í atvinnulífi hér á landi. Mikilvægt er að háskólinn mæti þörfum atvinnulífs og einstaklinga fyrir trausta og góða tækni- og rekstrarþekkingu. Með hinum nýja háskóla er stigið skref í átt til þess að tryggja áhrif og þátttöku atvinnulífs í háskólastarfi hér á landi.

 

1. Stefnt er að því að á næstu vikum verði gengið frá samþykktum fyrir einkahlutafélag er reki háskólann og að hann fái formlegt starfsleyfi menntamálaráðuneytis, sbr. lög um háskóla nr. 36/1997, fyrir árslok 2004. Jafnframt er að því stefnt að starfsemi HR og THÍ verði endanlega sameinuð í hinum nýja háskóla í síðasta lagi í júní 2005.

 

2. Aðstandendur háskólans, sem eru Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Verslunarráð Íslands (fyrir hönd SVÍV), skipa stjórn hins nýja félags sem jafnframt gegnir hlutverki háskólaráðs og markar það stefnu um rekstur og starfsemi háskólans. Gert er ráð fyrir að háskólinn hafi heimild til að innheimta skólagjöld.

 

3. Aðstandendur háskólans munu leggja til 300 m. kr. eigið fé og annað sem nauðsynlegt er til að háskólinn geti sinnt hlutverki sínu af metnaði og vaxið og dafnað í samræmi við hlutverk sitt að því gefnu að samkomulag náist við menntamálaráðuneytið um stuðning við starfsemi skólans, sbr. 13. tölulið þessarar yfirlýsingar. Einkahlutafélagið verður ekki rekið í hagnaðarskyni fyrir eigendur félagsins.

 

4. Aðstandendur háskólans skuldbinda sig til að uppfylla í hvívetna kröfur um gæði náms og rannsókna er stjórnvöld gera skv. lögum, reglugerðum, tilmælum og alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland á aðild að.

 

5. Aðstandendur háskólans tryggja að nemendur sem hafið hafa nám í HR og THÍ þegar háskólinn verður stofnaður skulu eiga rétt á að ljúka því í samræmi við þær skuldbindingar sem skólarnir hafa stofnað til. Jafnframt því mun háskólinn samræma kennsluskrár og námskröfur og bjóða fram endurskipulagt nám við fyrsta hentugleika.

 

6. Menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir því að nemendur sem þurfa að stunda verklegt nám og starfsnám hjá stofnunum hins opinbera geti gert það áfram á sömu forsendum og verið hefur við THÍ.

 

7. Háskólinn mun bjóða nám til BA-, BS- og diplómaprófs í þeim greinum sem HR og THÍ hafa boðið upp á. Auk þess er að því stefnt, að stofnaðar verði nýjar deildir á fyrsta starfsári skólans í kennslufræði og verkfræði.

 

8. Háskólinn mun bjóða upp á það framhaldsnám sem þegar hefur verið heimilað við núverandi skóla. Auk þess er stefnt að því að hann bjóði upp á MS gráðu í verkfræði og meistaragráðu í kennslufræði sem og frekara framhaldsnám eftir aðstæðum og nánara samkomulagi við menntamálaráðuneytið.

 

9. Háskólinn mun bjóða upp á sérhæft undirbúningsnám, sambærilegt námi í frumgreinadeild THÍ.

 

10. Stefnt er að því að háskólinn standi fyrir diplóma- og viðbótarnámi og stuðli að eflingu símenntunar í samvinnu við aðila sem vinna að þeim málefnum.

 

11. Menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir framlögum til skólans vegna kennslu í samræmi við reglur ráðuneytisins um fjármögnun háskóla. Heildarnemendaígildum háskólans mun fjölga miðað við núverandi skóla og verður fjölgunin fyrst og fremst í reikniflokkum 4 og 5 eins og þeir eru skilgreindir í reglum nr. 646/1999 um fjárveitingar til háskóla.

 

12. Við háskólann verða stundaðar rannsóknir og á næstu árum mun framlag ríkisins til rannsókna fara stigvaxandi til ársins 2009, háð þeim fyrirvörum sem settir verða í kennslu- og rannsóknasamningi og almennum kröfum um árangur rannsóknar-starfseminnar. Háskólinn mun auk þess efla rannsóknar- og þróunarstarf með fjármögnun frá fyrirtækjum, samtökum atvinnurekanda, samkeppnissjóðum innanlands og erlendis og í samstarfi við rannsóknar- og fræðslustofnanir.

 

13. Stefnt er að undirritun samnings, skv. annari mgr. 19. gr. laga nr 136/1997 um háskóla, sem taki til kennslu- og rannsókna eigi síðar en í júní 2005 og mun hann ná til fimm ára.

 

14. Menntamálaráðuneytið leggur hinum nýja háskóla til afnot af núverandi búnaði THÍ. Reykjavík, 19. október 2004 Menntamálaráðherra f.h. Samtaka atvinnulífsins f.h. Samtaka iðnaðarins Verslunarráð Íslands f.h. SVÍV.

 

Reykjavík, 19. október 2004


Menntamálaráðherra   

 

  f.h. Samtaka atvinnulífsins

 

 f.h. Samtaka iðnaðarins


      
Verslunarráð Íslands
           f.h. SVÍV