Hagsmunir atvinnulífsins eru almannahagsmunir

Í ræðu sinni á aðalfundi SA fjallaði Ingimundur Sigurpálsson, formaður samtakanna, um þann mikla árangur sem náðst hefur í íslensku atvinnulífi undanfarin ár og þær jákvæðu breytingar sem orðið hafa á starfsumhverfi fyrirtækja, m.a. með auknu frjálsræði og lækkun skatta. Sagði hann íslenskt atvinnulíf hafa færst inn í nútímann á býsna skömmum tíma og þjóðin öll notið góðs af enda hagvöxtur og kaupmáttur aukist verulega.

 

Hagsmunir atvinnulífsins eru almannahagsmunir

Ingimundur lagði á það áherslu að umbætur á starfsumhverfi atvinnulífsins væru ekki gerðar af greiðasemi við fyrirtæki eða eigendur þeirra, heldur vegna þess að bættur hagur fyrirtækja skilaði sér í bættum hag landsmanna. Hagsmunir atvinnulífsins væru því almannahagsmunir. Gjöld og álögur á fyrirtæki væru á endanum borin af neytendum.

 

Þrír fjórðu verðlagshækkana vegna húsnæðis

Þá fjallaði Ingimundur um þróun verðlags og viðmið við samningsbundna athugun á framvindu kjarasamninga. Sagði hann ekki undan því verða vikist að nota vísitölu neysluverðs til viðmiðunar. Hins vegar sagði hann að hafa bæri í huga að þrátt fyrir 4,3% hækkun vísitölunnar undanfarna 12 mánuði næmi hækkunin án húsnæðisliða einungis 1,1%. Þrjá fjórðu hluta verðbólgunnar mætti með öðrum orðum rekja til hækkunar á fasteignaverði en aðeins einn fjórða til hækkunar á vöru og þjónustu. Sagði Ingimundur vandséð að fasteignaeigendur, sem flestir hefðu átt eignir sínar um árabil, upplifðu hækkun eigna sem skerðingu á kaupgetu sinni. Sagði hann einsýnt að að við mat á verðlagsþróun og eðlilegum viðbrögðum hennar vegna yrði ekki litið framhjá þessum sérstöku aðstæðum.

 

Aukið aðhald opinberra fjármála

Ingimundur fjallaði um mikilvægi aukins aðhalds í opinberum fjármálum, ekki síst hjá sveitarfélögum, til þess að draga úr vægi vaxtahækkana við efnahagsstjórnina. Sagði hann takmarkaðar hagstjórnaraðgerðir með megináherslu á hækkun vaxta hafa leitt til þess hækkunar á gengi krónunnar langt umfram það sem samræmst geti langtímajafnvægi í þjóðarbúskapnum. Afkomu atvinnugreina í alþjóðlegri samkeppni væri því stefnt í hættu og mörg fyrirtæki hefðu dregið saman seglin, flutt starfsemi úr landi eða hætt starfsemi af þessum sökum.

 

Brýn verkefni á lífeyrissviðinu

Ingimundur fjallaði um stöðu lífeyrissjóðanna, aukin framlög atvinnurekenda og breytta stöðu vegna aukins lífaldurs og vaxandi örorkubyrði sjóðanna. Sagði hann nauðsynlegt að ná niðurstöðu með stjórnvöldum og verkalýðshreyfingunni um m.a. hlutverk lífeyrissjóða gagnvart örorku og samspil þeirra við önnur lífeyris- og bótakerfi.

 

Skattaumhverfi í fremstu röð

Loks fjallaði Ingimundur um mikilvægi samkeppnishæfs skattaumhverfis og rakti helstu tillögur SA í þeim efnum, mikilvægi einföldunar á leið erlends starfsfólks á íslenskan vinnumarkað, kosti einkarekstrar, m.a. í framkvæmd almannaþjónustu, mikilvægi öflugs framboðs á viðurkenndum námsleiðum fyrir ófaglærða, eflingu nýsköpunar o.fl.

 

Sjá ræðu Ingimundar