Gengi sem ekki fær staðist

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að samtökin séu alveg sammála Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni KB-banka, að núverandi gengi íslensku krónunnar fái ekki staðist og samræmist ekki raunstærðum í hagkerfinu. Sigurður sagði á ráðstefnu um gengi krónunnar í fyrradag að hefja þurfi veikingu krónunnar hið fyrsta.

 

„Menn hafa búist við því að krónan yrði sterk núna um skeið, og jafnvel næstu misserin, en við teljum að það gengi sem við sjáum núna sé klárt yfirskot og að það fái ekki samrýmst jafnvægi í efnahagslífinu,“ segir Ari, „enda sjáum við það bæði af gríðarlegum viðskiptahalla og stöðu samkeppnisatvinnu-veganna að það sverfur að samkeppnisatvinnuvegunum og það er mikið ójafnvægi í utanríkisviðskiptunum.“

 

Væntingar ráða miklu

„Þetta hlýtur að leiðréttast,“ segir Ari ennfremur. „Þó menn séu að spá því að vegna þeirra framkvæmda sem framundan eru verði gengið áfram sterkt, þá lítur maður líka til þess að væntingar ráða miklu um gengið. Þegar krónan styrktist þá gerði hún það fyrr en menn töldu vera bein rök fyrir. Auðvitað getur vel verið að það verði á sama veg, þegar hún fer niður þá gerist það hraðar og í meira mæli en menn hafa reiknað með. Mér finnst það vera mjög áhættusamt að jafnvel einstaklingar velji þann kostinn í dag vegna húsakaupa að fjármagna sig með erlendu láni. Með því hlýtur að vera tekin mjög mikil áhætta, a.m.k. til skamms tíma litið, á að krónan falli gagnvart erlendum gjaldmiðlum, að maður tali nú ekki um gagnvart gjaldmiðili eins og dollaranum,“ segir Ari.