Fundur um loftslagsbreytingar - skráning stendur yfir

Þriðjudaginn 5. desember næstkomandi gefst áhugafólki um atvinnulíf og umhverfismál kærkomið tækifæri til að hlýða á Dr. Nick Campbell ræða um loftslagsbreytingar og atvinnulífið á morgunverðarfundi SA. Dr. Campbell er formaður nefndar Evrópusamtaka atvinnulífsins um loftslagsbreytingar og umhverfisstjóri hjá alþjóðlega efnavörufyrirtækinu Arkema SA. Campbell hefur því ríka innsýn í þennan málaflokk sem hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Á fundinum munu einnig Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group og Árni Magnússon, forstöðumaður orkumála hjá Glitni, lýsa viðhorfum sínum til málsins.

 

Hluti af fundaröð SA 2006-2007

Morgunverðarfundurinn er hluti af fundaröð Samtaka atvinnulífsins um atvinnulíf og umhverfi sem hófst haustið 2006 og stendur fram til 2007. Fundurinn er sá þriðji í röðinni og er yfirskrift hans Loftslagsbreytingar og atvinnulífið. Mikill fengur er að komu Dr. Campbells til landsins en hann hefur sótt fundi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um langa hríð og tók þátt í ráðstefnunni í Naíróbí sem lauk nýverið. Fundurinn fer fram á ensku. Fundarstjóri er Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

 

Morgunverðarfundur SA fer fram á Grand Hótel Reykjavík, þriðjudaginn 5. desember frá kl. 8:15-10:00. Þátttökugjald er kr. 2.500 og er morgunverður innifalinn.

 

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér á vef SA.