Frjálsa för EES-borgara til Íslands frá 1. maí

Í aðildarsamningum átta af tíu nýjustu aðildarríkjum ESB (Malta og Kýpur eru undanskilin) eru bráðabirgðabirgðaákvæði sem heimila hverju aðildarríki að takmarka frjálsa för launafólks frá þessum ríkjum í allt að sjö ár eða til 30. apríl 2011. Þessi ákvæði eru einnig hluti EES-samningsins. Þessum sjö árum er skipt niður í þrjú styttri tímabil og lýkur því fyrsta 30. apríl. Ef ekki er tekin ný ákvörðun um takmörkun þá tekur við frjáls för launafólks til og frá nýju aðildarríkjunum eftir 1. maí.

 

Engar takmarkanir í Svíþjóð, Bretlandi og Írlandi

Hinar tímabundnu takmarkanir lúta einungis að aðgangi starfsfólks frá nýju aðilarríkjunum að vinnumarkaði annarra ríkja þannig að það þarf að fá atvinnuleyfi eins og ríkisborgarar ríkja utan EES. 12 af 15 eldri aðildarríkjum ESB nýttu sér heimildir til takmörkunar, en Svíþjóð, Írland og Bretland gerðu það ekki. Önnur ríki settu mis strangar takmarkanir og t.d. eru þær mun strangari hér en í Danmörku. Þótt aðildarríki afnemi takmarkanir frá 1. maí 2006 er heimilt að taka þær upp á ný samkvæmt sérstöku öryggisákvæði í aðildarsamningum ríkjanna, ef röskunar gætir á vinnumarkaði vegna mikils innstreymis erlends starfsfólks.

 

Góð reynsla ESB hingað til

Framkvæmdastjórn ESB hefur nýlega gefið út skýrslu um reynsluna af inngöngu nýju aðildarríkjanna á vinnumarkað ESB, sem sagt er frá í þessu fréttabréfi. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að áhrifin hafi verið jákvæð í aðalatriðum en fólksflutningar hafi orðið minni en við var búist. Starfsfólk frá nýju aðildarríkjunum hafi dregið úr skorti á vinnumarkaði og þannig stuðlað að meiri hagvexti í Evrópu. Ríkin sem opnuðu landamæri sín fyrir starfsfólki frá nýju aðildarríkjunum, þ.e. Svíþjóð, Írland og Bretland bjuggu við mikinn hagvöxt, minnkandi atvinnuleysi og fjölgun starfa á þessu tímabili. Engin dæmi er að finna um stórfellt streymi starfsfólks milli landa í atvinnuleit eða ásókn í bótakerfi frá aðfluttu fólki. Framkvæmdastjórnin hvetur aðildarríkin þar af leiðandi til þess að íhuga gaumgæfilega hvort þörf sé fyrir framlengingu takmarkana í ljósi þessarar reynslu og ástandsins á vinnumarkaði heima fyrir.

 

Finnar og Spánverjar afnema takmarkanir

Nú liggur fyrir að Finnland og Spánn hafa ákveðið að afnema takmarkanirnar, Portúgal mun vera líklegt til að fara sömu leið, en Þýskaland, Frakkland og Austurríki hafa ákveðið að framlengja þær. Önnur ríki hafa ekki enn ákveðið hvað þau ætla að gera og er Ísland þeirra á meðal.

 

Félagsmálaráðuneytið er með það til skoðunar hvort ástæða sé til þess að halda takmörkunum áfram eða aflétta þeim. Mun ráðuneytið fylgjast með því  hvað ESB-ríkin ákveða að gera og hefur leitað eftir áliti aðila vinnumarkaðarins til þessa álitaefnis. ASÍ mun vera tvístígandi í málinu en hefur tilkynnt að afstöðu samtakanna sé að vænta bráðlega.

 

SA með skýra afstöðu

Afstaða Samtaka atvinnlífsins er hins vegar afdráttarlaus og telja þau eðlilegt að takmörkunum verði aflétt frá 1. maí næstkomandi. Síðastliðið haust létu SA í ljós það álit að ástæða væri til þess að aflétta takmörkunum þá og þegar því mikil umframeftirspurn eftir starfsfólki kallaði á snurðulausan aðgang starfsmanna frá nýju aðildarríkjunum. Það vill svo vel til að saman fer mikill áhugi í atvinnulífinu á því að ráða fólk frá Póllandi og Eystrasaltsríkjunum í vinnu hér á landi og að sama skapi er áhugi meðal fólks í þessum ríkjum að stunda vinnu hér á landi. Auk þess hafa umræddar takmarkanir haft þau  hliðaráhrif að ýta undir umdeilda starfsemi starfsmannaleiga, einkum í byggingariðnaði, sem margar hverjar hafa verið ásakaðar um að virða ekki lágmarksákvæði kjarasaminga. Við þessu ákalli SA var ekki brugðist þótt efnislega hafi ekki verið hreyft mótbárum gegn þeim rökum sem SA settu fram. Í umræðum um skoðun á forsendum samninga í nóvember síðastliðnum tóku SA málið til umræðu á ný og kom þá ekki annað fram en að ágreiningslaust væri að þessum takmörkunum yrði aflétt. SA hljóta að treysta því að svo verði gert, enda gengu samtökin frá samkomulagi um áframhald samninga í þeirri trú.

 

Góð reynsla Íslendinga

Reynsla Íslendinga hefur verið góð af flutningi starfsfólks hingað frá nýjum aðildarríkjum ESB. Starfsfólk frá þessum ríkjum hefur gengið í laus störf sem ekki hefur reynst unnt að manna með Íslendingum og það hefur þannig stuðlað að meiri hagvexti, betri þjónustu og aukinni velferð fyrir landsmenn en ella. Líklega býr ekkert ríki á EES-svæðinu við meiri þenslu á vinnumarkaði, meiri umframeftirspurn eftir starfsfólki, en Íslendingar og þar af leiðandi eru hvergi sterkari rök fyrir afnámi takmarkananna en hér á landi. Aðalatriðið er að við þurfum á aðgerðum að halda til að stuðla að betra jafnvægi á vinnumarkaðnum en nú er. Reynslan af samnorræna vinnumarkaðnum á sínum tíma og síðan þeim samevrópska með EES-samningnum árið 1993 ætti að hafa kennt landsmönnum að ótti við flóðbylgju útlendinga hingað til lands, sem hrifsi af þeim störf, er ástæðulaus. Tortryggnir efasemdarmenn geta sótt huggun í öryggisákvæðið sem heimilar það að tímabundnar takmarkanir verði teknar upp á ný, ef svo ólíklega vildi til að óæskileg flóðbylgja Austur-Evrópumanna skylli á landinu.

 

Hannes G. Sigurðsson