Félagafrelsi starfsmanna og dómsvald Félagsdóms

Nýlegur dómur Hæstaréttar vekur upp aðkallandi spurningar um félagafrelsi starfsmanna og ekki síður um dómsvald Félagsdóms, sem er sérdómstóll í málum um túlkun og gildi kjarasamninga og laga um stéttarfélög og vinnudeilur, en dómum hans verður ekki áfrýjað.

 

Forgangsréttarákvæði kjarasamninga

Deilan snerist um það hvaða réttur fælist í hinum svokölluðu forgangsréttarákvæðum kjarasamninga eða nánar tiltekið hvort forgangsrétturinn ætti við um uppsagnir starfsmanna. Forgangsréttarákvæði eru í flestum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og veita þau félagsmönnum viðkomandi stéttarfélags forgang til starfa ef félagsmenn bjóðast. Á síðari árum hefur verið gerður greinarmunur á þess konar  forgangsrétti til starfa og skyldu til aðildar að félagi sem sumir kjarasamningar kváðu á um. Við stjórnarskrár-breytinguna 1995 var tekið upp í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár ákvæði um að engan megi skylda til aðildar að félagi. Síðan hefur verið litið svo á að óheimilt væri að semja um aðildarskyldu að stéttarfélagi. ASÍ breytti í kjölfarið samþykktum sínum því til samræmis.

 

Túlkun Félagsdóms

Meiri óvissa hefur verið um forgangsréttarákvæðin vegna þeirra ummæla í nefndaráliti stjórnskipunarnefndar að þau leiði ekki af sér óheimila félagsskyldu. Með vísan til þessa og Félagsdóms frá 1965 var það niðurstaða Félagsdóms að forgangsréttarákvæði kjarasamninga nái ekki tilgangi sínum séu þau takmörkuð þannig að félagsmenn stéttarfélagsins sitji ekki fyrir um vinnu þegar fækka þarf starfsmönnum. Því var jafnframt hafnað að skýra bæri forgangsréttarákvæðið í samræmi við ákvæði stjórnarskrár. Samkvæmt dómi Félagsdóms braut fyrirtækið gegn forgangsréttarákvæði kjarasamningsins með því að segja félagsmönnum viðkomandi stéttarfélags upp starfi og hafa á sama tíma í störfum félagsmenn í félagi sem ekki hafði samið um forgangsrétt félagsmanna sinna til viðkomandi starfa. 

 

Sýknudómur héraðsdóms

Í framhaldi af dómi Félagsdóms höfðuðu starfsmennirnir mál til heimtu skaðabóta vegna uppsagnanna fyrir almennum dómstólum. Fyrirtækið var sýknað af bótakröfunni í héraðsdómi með vísan til félagafrelsisákvæðis stjórnarskrár. Taldi dómurinn að þótt ákvæði í kjarasamningum um forgangsrétt til starfa yrðu almennt ekki talin brjóta í bága við félagafrelsisákvæði stjórnarskrár verði að beita slíku ákvæði af varfærni þegar lýstur saman hagsmunum félagsmanna í stéttarfélagi sem gert hefur slíkan samning og samstarfsmanna þeirra sem ekki heyra undir samninginn. Bent er á að félagsmenn í öðrum stéttarfélögum eða einstaklingar utan félaga geti verið ráðnir ef enginn félagsmaður sækir um starfið og að slík ráðning þurfi ekki að brjóta gegn forgangsréttarákvæðinu. Taldi dómurinn það að láta félagsaðild skipta sköpum við uppsagnir fela í sér svo alvarlega íhlutun í frelsi manna til að velja sér stéttarfélag eða vera utan þeirra að jafngilti þvingun til aðildar að félagi.

 

Hæstiréttur er bundinn af niðurstöðu  Félagsdóms 

Dómi héraðsdóms var snúið við í Hæstarétti og fyrirtækið dæmt til að greiða starfsmönnunum bætur vegna uppsagnanna á grundvelli dóms Félagsdóms. Vísar Hæstiréttur til þess að dómar Félagsdóms séu lögum samkvæmt endanlegir og verði ekki áfrýjað. Hæstiréttur taldi dóminn því ekki bæran til að fjalla efnislega um málið. Félagsdómur á þannig endanlegt úrskurðarvald um túlkun á félagafrelsisákvæðum stjórnarskrár þegar meta þarf áhrif þeirra á efni kjarasamninga. Niðurstaða í slíkum málum verður ekki endurskoðuð á æðra dómstigi. Draga verður í efa að slík skipan sé réttlætanleg þegar um er að ræða mál sem ekki krefjast skjótrar úrlausnar og varða mikilsverða hagsmuni, eða í þeim tilvikum að önnur löggjöf en lög um stéttarfélög og vinnudeilur kann að hafa afgerandi áhrif á niðurstöðu máls. Í þeim tilvikum verður heldur ekki séð að röksemdir um sérþekkingu Félagsdóms eigi við. Styrkur Félagsdóms er á hinn bóginn að þar má fá skjóta úrlausn þegar niðurstaða þolir ekki bið og mikil verðmæti eru í húfi, svo sem í deilum um lögmæti verkfalla.

 

Þörf á endurskoðun laga um Félagsdóm

Félagsdómur hefur starfað með svipuðum hætti frá stofnun dómsins 1938 og skilað góðu starfi. Þjóðfélagshættir hafa gjörbreyst á þessum tíma, aðstæður á vinnumarkaði orðið margbreytilegri og meðferð mála fyrir dómstólum breyst, t.d. með möguleikanum á flýtimeðferð. Það er jafnframt viðurkennd meginregla að menn skuli eiga kost á að fá dóma endur-skoðaða á æðra dómstigi, a.m.k. þegar um mikilsverða hagsmuni er að ræða. Það er óviðunandi að niðurstöður dómsins í mikilvægum málum sem hafa almennt gildi, eins og á við í því máli sem hér er til umfjöllunar, fáist ekki endurskoðaðar. SA telja því brýnt að ráðist verði í að endurskoða lög um Félagsdóm.

 

Er félagafrelsi starfsmanna þá orðin tóm?

Ekki er óalgengt að starfsmenn séu ekki allir í sama félagi. Samningssvið stéttarfélaga skarast í auknum mæli án þess að mörkin séu alltaf ljós. Hvernig á þá með að fara ef fækka þarf starfsmönnum? Hvað ef félagsbundinn maður krefst starfs hjá fyrirtæki á grundvelli forgangs umfram þá sem þegar eru í starfi? Vinnuveitandinn á á hættu að verða bótaskyldur virði hann ekki forgangsréttarákvæðið og láti þá víkja sem hvorki eru í viðkomandi félagi né njóta hliðstæðs forgangsréttar. Hann á ekki annan kost en að láta þessa starfsmenn fara eða ýta þeim inn í félagið og gerast þar með sekur um að þvinga starfsmenn til aðildar að félagi og jafnvel orðið bótaskyldur. Í því felst félagafrelsið. Þessi mál verða ekki skýrð í bráð nema eitthvað verði að gert. Hjálpin kemur þó hugsanlega að utan þar sem nefnd Evrópuráðsins sem hefur eftirlit með framkvæmd Félagsmálasáttmála Evrópu hefur ítrekað gagnrýnt forgangsréttarákvæði kjarasamninga og talið þau brjóta gegn sáttmálanum.

 

Hrafnhildur Stefánsdóttir