Efnahagslegur stöðugleiki og lítil verðbólga

Meginmarkmið Samtaka atvinnulífsins í komandi kjaraviðræðum er að næstu kjarasamningar samræmist lítilli verðbólgu, efnahagslegum stöðugleika og þeir raski ekki samkeppnishæfni atvinnulífsins segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í viðtali við Morgunblaðið. „Flestir samningar sem við gerum renna út um áramótin en þar er um að ræða vel á annað hundrað samninga, stóra og smáa. Við lítum svo á við samningsgerðina að skoða verði alla þessa samninga í samhengi. Við þurfum því að horfa yfir allt sviðið og velta því fyrir okkur hvaða áhrif útkoman úr samningunum mun hafa á efnahagsþróunina, á samkeppnisstöðu atvinnulífsins, verðbólguna og þróunina almennt á vinnumarkaðinum,“ segir Vilhjálmur.

 

Í viðtalinu segist Vilhjálmur gera ráð fyrir að viðræður við viðsemjendur hefjist af fullum krafti upp úr næstu mánaðamótum þegar byrjað verður á að semja um viðræðuáætlanir. „Best væri ef við gætum lokið obbanum af okkar samningum fyrir jól,“ segir hann.

 

Endurbætur á vinnumarkaði og þjónusta aukin

Í Morgunblaðinu kemur fram að mikil vinna hefur verið lögð í viðræður á milli SA og ASÍ um útfærslu hugmynda um svokallaðar áfallatryggingar og endurbætur á tryggingum launafólks vegna veikinda og slysa- og á örorkubótakerfinu. Er markmiðið meðal annars að gera sem flestum sem hverfa af vinnumarkaði vegna veikinda eða slysa kleift að sækja aftur út á vinnumarkaðinn. „Þetta er mjög stórt mál,“ segir Vilhjálmur. „Þarna er um að ræða samspil réttinda til greiðslna í veikinda- og slysatilvikum hjá vinnuveitanda, úr  sjúkrasjóðum og örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum. Við erum að fjalla um þessi mál vegna þess að okkur hefur fundist að við værum að missa allt of marga yfir á örorku. Kerfið eins og það er í dag og samspil einstakra þátta virkar í of miklum mæli eins og einstefnugata. Allt of margir sem einu sinni hafa lent inn á þessari götu komast aldrei út úr örorku. Við erum að reyna að sameina þá krafta sem vinna í þessum málum í einn farveg. Meginatriðið er að auka þjónustu við þá sem lenda í veikindum eða slysum, bæta úrræði á borð við endurhæfingu þannig að við missum ekki eins marga yfir í örorkuna. Ef við náum árangri á þessu sviði og minnkum örorkutíðnina sjáum við fram á að við getum komið á fót kerfi sem kostar a.m.k. ekki meira en núverandi kerfi, jafnvel minna, en skilar miklu betri árangri en fyrirkomulagið eins og það hefur verið,“ segir Vilhjálmur.

 

Sjá nánar í Morgunblaðinu 29. ágúst