Efla þarf samkeppnishæfni skattkerfisins

Að undanförnun hefur verið fjallað um þá þróun í íslenskum fjölmiðlum að íslensk fyrirtæki stofni eignarhaldsfélög í Hollandi til að ná fram hagstæðara skattaumhverfi. Ástæðan fyrir því að fyrirtækin gera þetta er að söluhagnaður af hlutabréfum skapar skattskyldu hjá íslenskum fyrirtækjum en ekki hjá hollenskum eignarhaldsfélögum. Þótt íslensk félög geti frestað skattgreiðslum af söluhagnaði hlutabréfa svo lengi sem fjárfest er í öðrum félögum þá myndast smám saman skattskuldbinding sem dregst frá eigin fé félaganna. Með því að stofna hollenskt eignarhaldsfélag er hægt að mynda söluhagnaðinn þar og flytja hann eftir atvikum til Íslands sem arð sem ekki er greiddur skattur af.

 

Söluhagnaður hlutabréfa verði skattfráls

Til þess að laga þetta þarf að gera söluhagnað íslenskra fyrirtækja af hlutabréfum skattfrjálsan eins og arðinn. Slík breyting er í raun í takt við hugsunina í skattlagningu tekna fyrirtækja og skattlagningu atvinnulífsins í heild. Þegar fjármagnstekjuskatturinn var til að mynda tekinn upp var það grundvallarsjónarmið að skatturinn ætti ekki að hafa áhrif á skipulag atvinnulífsins, þ.e. hvort menn vildu reka móðurfélag og dótturfélög, hlutdeildarfélög eða hvaða annað fyrirkomulag sem menn telja hagstætt frá rekstrarlegum sjónarmiðum. Með öðrum orðum var litið á atvinnulífið sem eina heild og skatturinn var hafður hlutlaus gagnvart skipulagi einstakra fyrirtæka og fyrirtækjasamstæða.  Meginmálið var að leggja skattinn á þegar peningarnir væru teknir út úr atvinnulífinu sem arður eða söluhagnaður. 

 

 

Hagnaður atvinnulífs til einstaklinga verði skattlagður

Skattskylda söluhagnaðar milli fyrirtækja gengur gegn því grundvallarsjónarmiði sem lýst er hér að framan og ástæðan fyrir því að þetta kom ekki inn við upptöku fjármagnstekjuskattsins var sú að þá hafði þessum ákvæðum tiltölulega nýlega verið breytt þannig að skattfrestun var leyfð. Áður hafði söluhagnaður komið strax til skattskyldu og það hafði leitt til þess að fyrirtæki áttu helst ekki viðskipti með hlutabréf og þetta gerði alla uppbyggingu atvinnulífsins mjög ósveigjanlega. Frestun söluhagnaðarins leysti úr brýnni þörf á sínum tíma og menn litu ekki á skattskylduna sem stórkostlegt vandamál af þeim ástæðum. En nú eru aðrir tímar og það er orðið brýnt að samræma meðferð söluhagnaðar milli fyrirtækja við það grundvallarsjónarmið að skattlagning arðs og söluhagnaðar eigi að vera hlutlaus gagnvart skipulagi atvinnulífsins og skattleggja eigi hagnað af hlutafbréfaeign fyrst og fremst þegar hann er tekinn út úr því til einstaklinga. Það er alls ekki í þágu hagsmuna íslensks samfélags að atvinnulífið skuli þurfa að notast við hjáleiðir eins og hollensk eignarhaldsfélög til þess að búa við samkeppnishæft skattumhverfi.

 

Vilhjálmur Egilsson