Blikur á lofti á íslenskum vinnumarkaði

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar Námsmatsstofnunar sem gerð var fyrir SA stefnir meginþorri ungs fólks sem er á leið í framhaldsnám á Íslandi að því að verða háskólamenntaðir sérfræðingar sem starfa í mennta- eða heilbrigðisgeiranum eða starfa við verslun og þjónustu. Rætt var við 15 ára ungmenni árin 2000, 2003 og 2006. Niðurstöður rannsóknarinnar endurspegla viðhorf þess fólks sem verður ráðandi í íslensku þjóðfélagi á árunum 2030-2050. Samtök atvinnulífsins telja niðurstöðurnar gefa vísbendingar um framtíðarþróun á íslenskum vinnumarkaði og að upp kunni að koma alvarlegt misvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir starfsfólki í atvinnulífinu. 

 

SA telja niðurstöður Námsmatsstofnunar mjög áhugaverðar og lýsa miklum metnaði meðal ungs fólks en eftirfarandi þættir séu áhyggjuefni og kalli á breyttar áherslur í menntamálum:

 

- Fátt bendir til þess að kynbundið starfsval sé á undanhaldi. Drengir hafa t.d. mun meiri áhuga á iðngreinum en stúlkur og þær hafa mun meiri áhuga á sérfræðistörfum en drengir. Stjórnun höfðar jafnframt meira til drengja en stúlkna og þær hafa mun meiri áhuga á að starfa við heilbrigðisþjónustu en þeir.

 

- Umhugsunarefni er hvort menntakerfið miði einkum að því að mennta fólk til að starfa innan þess eða fyrir hið opinbera. Sífellt fleiri geta gengið menntabrautina á enda án þess að hafa fengið greinargóða mynd af vinnumarkaði og atvinnulífi.

 

- Áhugaleysi ungs fólks á framleiðslugreinum er algjört. Verði raunin sú að yfirgnæfandi hluti Íslendinga kjósi að starfa í öðrum greinum í náinni framtíð, verður starfsfólk af erlendum uppruna ríkjandi í þessum atvinnugreinum.

 

- Niðurstöðurnar gefa til kynna lítil tengsl milli atvinnulífs og skóla á Íslandi. Þessi tengsl þarf að auka.

 

- Lítill og minnkandi áhugi á raungreinum er mikið áhyggjuefni. Minnkandi áhugi á tölvugreinum skilar sér ekki í auknum áhuga á öðrum raungreinum. Stúlkur sýna raungreinum mun minni áhuga en drengir. Framtíð Íslands sem hátæknisamfélags gæti verið í hættu í ljósi þessa.

 

Sjá nánar:

 

Rannsókn Námsmatsstofnunar fyrir SA (PDF-skjal)

 

Kynning höfunda (PDF-skjal)