Bjartsýni ríkir í atvinnulífinu

Niðurstöður liggja nú fyrir úr ársfjórðungslegri könnun Capacent Gallup á stöðu og framtíðarhorfum í atvinnulífinu, sem gerð var í september fyrir Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands. Svör stjórnenda benda til þess að aðstæður í efnahagslífinu séu góðar. Aðstæður eru lakari þegar litið er sex og tólf mánuði fram í tímann, en óvissa um framtíðarhorfur er samt talin minni en í könnunum fyrr á árinu. Áfram er spenna á vinnumarkaði og skortur á starfsfólki í mörgum atvinnugreinum.

 

Fyrirtæki í könnuninni gera að meðaltali ráð fyrir 3,2% hækkun launa á næstu sex mánuðum. Bjartsýni gætir um þróun hagnaðar og EBITDA-framlegðar á þessu ári, sérstaklega í fjármála- og tryggingastarfsemi og sjávarútvegi. Fjárfestingarútgjöld fyrirtækja eru talin aukast á þessu ári en dragast saman á því næsta. Því er spáð að verðbólga hjaðni verulega á næstu 12 mánuðum og að Seðlabankinn lækki stýrivexti niður í 10,8% í september 2007. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

 

Núverandi aðstæður í efnahagslífinu Núverandi aðstæður í efnahagslífinu - þróun- þróun

Um 63% svarenda telja núverandi aðstæður í efnahagslífinu góðar, um 10% telja þær slæmar en um 27% álíta þær hvorki góðar né slæmar. Þessi niðurstaða er ívið hagstæðari en í sambærilegri könnun í maí. Aðstæður eru taldar bestar í fjármála- og tryggingastarfsemi, en að öðru leyti er lítill munur eftir atvinnugreinum. Eflaust má rekja aukna bjartsýni til þess að horfur um verðlagsþróun á næstunni hafa batnað frá því fyrr á árinu í kjölfar samnings SA og verkalýðsfélaganna um áframhaldandi gildi kjarasamninga út árið 2007 ásamt því að fjármálakerfið virðist hafa endurheimt trúverðugleika eftir erfiða umræðu fyrr á árinu.

 

 

Aðstæður eftir sex og tólf mánuði

Stjórnendur vænta þess að aðstæður í efnahagslífinu eftir sex mánuði verði talsvert lakari en nú er. Telja um 24% fyrirtækjanna að aðstæður verði verri, um 45% búast við óbreyttum aðstæðum, en um 31% búast þó við betri aðstæðum. Athygli vekur að stjórnendur vænta betri aðstæðna þegar horft er tólf mánuði fram í tímann. Búast 45% svarenda þá við betri aðstæðum, um 26% telja að þær verði verri og 29% vænta óbreyttrar stöðu. Væntingar um þróun atvinnulífsins næstu 6 og 12 mánuði eru talsvert hagstæðari en í könnunum fyrr á árinu. Líklegt má telja að ástæður aukinnar bjartsýni eftir 12 mánuði megi rekja til væntinga um hjaðnandi verðbólgu, stöðugra gengi krónunnar og betra jafnvægi á vinnumarkaði.

 

Aðstæður í efnahagslífinu eftir 6  mánuði - þróun

 

Aðstæður í efnahagslífinu eftir 6 mánuði - þróun

 

Aðstæður í efnahagslífinu eftir 12 mánuði - þróun

 

Aðstæður í efnahagslífinu eftir 12 mánuði - þróun

Skortur á starfsfólki

Skortur er talinn vera á starfsfólki hjá um 54% fyrirtækjanna en nægt framboð hjá um 46% þeirra. Mestur skortur kemur fram í verslun (71%), iðnaði (61%), samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu (59%) sem og í ýmissi þjónustu (54%), en í sjávarútvegi, fjármála- og tryggingastarfsemi og byggingastarfsemi taldi meirihluti fyrirtækja að framboð starfsfólks væri nægjanlegt.

 

Skortur á starfsfólki

 

Í febrúar skorti 47% fyrirtækja starfsfólk og 53% í maí þannig að þeim fyrirtækjum sem ekki tekst að fullmanna laus störf fjölgaði enn í september. Þegar litið er til umsvifa í efnahagslífinu, einkum fjárfestinga í byggingariðnaði, má gera ráð fyrir að umframeftirspurn eftir starfsfólki hafi náð hámarki í þessari könnun.

 

Starfsmannafjöldi næstu sex mánuði Horfur um starfsmannafjölda næstu 6 mánuði

Í ljósi þess að enn skortir á að fyrirtækjum takist að manna laus störf kemur ekki á óvart að talsverð ráðningaráform komi fram á næstu sex mánuðum. Slík áform eru þó að þessu sinni minni en í könnunum fyrr á árinu. Meirihluti fyrirtækjanna eða um 56% væntir þess að starfsmannafjöldi verði óbreyttur á næstu sex mánuði, fjölgunar var vænst hjá um 38% en fækkunar hjá um 6%.

 

Laun

Hjá um 67% þátttökufyrirtækja er talið að meðallaun á starfsmann muni hækka á næstu sex mánuðum en um 33% svarenda búast við að laun muni standa í stað. Svör þátttökufyrirtækjanna benda til að meðalhækkun launa verði 3,2%.  Til samanburðar þá hækka laun flestra launamanna á almennum vinnumarkaði um 2,9% skv. kjarasamningum.

 

Velta

Jákvæð mynd blasir einnig við þegar litið er til svara þátttökufyrirtækja um áætlaða veltu á árinu 2006 miðað við síðasta ár. Um 74% telja að velta muni aukast, um 20% búast við óbreyttri veltu og aðeins um 6% búast við samdrætti. Niðurstaðan er hagstæðust í fjármála- og tryggingastarfsemi, samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu og sjávarútvegi, en einnig viðunandi í öðrum atvinnugreinum.

 

Hagnaður

Bjartsýni gætir um afkomu á þessu ári og telja um 45% fyrirtækjanna að hagnaður verði meiri á þessu ári en í fyrra, um 27% búast við minni hagnaði og um 27% búast við svipuðum hagnaði. Um 87% fyrirtækja í fjármála- og tryggingastarfsemi búast við meiri hagnaði. Einnig eru horfur á auknum hagnaði í sjávarútvegi og ýmissi þjónustustarfsemi. Í öðrum atvinnugreinum er vægi þeirra sem búast við auknum hagnaði ámóta og þeirra sem vænta minni hagnaðar.

 

EBITDA-framlegð síðustu sex mánuði

Niðurstaðan um afkomuþróun er fremur skýr þegar litið er til breytinga á EBITDA-framlegð (þ.e. hagnaði fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir) síðustu sex mánuði. Um 56% þátttökufyrirtækja telja að framlegð hafi aukist, um 17% gefa til kynna minni framlegð en óbreytt staða var hjá um 27% svarenda. Þróunin er hagstæðust í sjávarútvegi og fjármála- og tryggingastarfsemi, en einnig viðunandi í öðrum atvinnugreinum.

 

EBITDA-framlegð næstu sex mánuði

Um 47% þátttökufyrirtækja telur að framlegð muni aukast á næstu sex mánuðum, lækkandi framlegðar er vænst hjá um 17% svarenda og um 36% búast við óbreyttri framlegð. Horfur eru taldar bestar í fjármála- og tryggingastarfsemi en einnig viðunandi í öðrum atvinnugreinum.

 

Fjárfestingar

Niðurstöður benda til þess að fjárfesting í atvinnulífinu verði nokkru meiri á þessu ári en í fyrra. Hjá um 38% þátttökufyrirtækja er gert ráð fyrir aukningu, um 24% búast við minni fjárfestingu en um 38% gera ráð fyrir svipaðri fjárfestingu. Benda svör í könnuninni til þess að fjárfesting fyrirtækja aukist um 10% á þessu ári en dragist síðan verulega saman á næsta ári.

 

Spá um verðbólgu, stýrivexti og gengi

Þegar litið er til vegins meðaltals í svörum fyrirtækja í könnuninni er því spáð að vísitala neysluverðs hækki um 3,5% á næstu 12 mánuðum en um 5,5% á næstu tveimur árum. Þá er því spáð að stýrivextir Seðlabankans verði 10,8% eftir 12 mánuði. Um 40% fyrirtækjanna spá því að gengi krónunnar muni veikjast á næstu 12 mánuðum, um 25% búast við að það styrkist en um 35% vænta þess að gengið haldist óbreytt.

 

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent Gallup. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með um 10 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

 

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 5. – 27. september 2006 og voru spurningar alls 32. Í upphafleg úrtaki voru 410 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun), en í endanlegu úrtaki voru 399 fyrirtæki. Svarhlutfall var 64,7%. Svör fyrirtækja eru vegin eftir launagreiðslum. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.