Aukin skriffinnska ekki besta leiðin

Tímasetning og óþarflega flóknar leiðbeiningar hafa hugsanlega haft eitthvað að segja með hve fá fyrirtæki veittu félagsmálaráðuneytinu upplýsingar um jafnréttisáætlanir sínar, en einungis um eitthundrað fyrirtæki af þeim tæplega 800 sem óskað var eftir slíkum upplýsingum frá, skiluðu þeim. Þetta segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið.

 

„Þetta eru afskaplega dræm viðbrögð, sérstaklega miðað við það sem við eigum að venjast í tölvupóstkönnunum sem við höfum staðið fyrir,“ segir Ari. Segir hann hugsanlegt að ástæðurnar megi finna í hvenær ársins könnunin sé gerð, en margir starfsmenn séu komnir í sumarfrí. „Þá er hugsanlegt að nálgun ráðuneytisins hafi, að einhverra mati, þótt fráhrindandi. Með beiðninni voru sendar leiðbeiningar um gerð jafnréttisáætlana, sem okkar fólk telur óþarflega flóknar og ganga lengra en lög gera kröfu um, auk þess sem þær gera ekki greinarmun á því hvað teljist lagaskylda og hvað jafnréttisyfirvöld telji æskilegt við gerð jafnréttisáætlana, þegar skyldunni sleppi." Segir Ari að menn verði að hafa í huga að langflest íslensk fyrirtæki séu fámenn og það séu í raun tiltölulega fá fyrirtæki sem eru með fasta starfsmenn sem sjái eingöngu um starfsmannamál.

 

Jafnrétti hluti faglegrar stjórnunar

Samtök atvinnulífsins leggja mikla áherslu í sínum málflutningi á að það sé liður í faglegri starfsmannastjórnun að gæta að jafnréttismálum. Að umbun og framganga sé veitt á málefnalegum forsendum, eftir verðleikum og framlagi - burtséð frá kyni. Það má hins vegar spyrja hvort ekki séu einfaldari og áhrifaríkari leiðir til að ná því markmiði en sú sem farin hefur verið í lögunum,“ segir Ari. Að sögn Ara voru samtökin því ekki hlynnt að skylda til setningar jafnréttisáætlunar, eins og sú sem hér um ræðir, væri lögfest. „Við teljum mikla skriffinnsku falla illa að veruleika íslenskra fyrirtækja, sem oft eru knappt mönnuð, og erum ekki sannfærð um að hún sé til þess fallin að ýta undir jafnrétti í reynd.“ Ari segir að þegar þetta hafi hins vegar orðið lagakrafa árið 2000 hafi SA skrifað leiðbeiningar um gerð jafnréttisáætlana, sem gera myndu fyrirtækjum kleift að uppfylla kröfur um jafnréttisáætlun á tiltölulega einfaldan hátt. „Við höfum ekki haft neina ástæðu til að ætla að þær leiðbeiningar séu ekki í samræmi við lög þar sem Jafnréttisstofa hefur ekki gert neinar athugasemdir þar að lútandi,“ segir Ari.