Aukið hagræði hins opinbera af einkarekstri

Stjórn SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu telur að endurskilgreina þurfi þjónustuhlutverk ríkisins og færa fleiri verkefni til einkaaðila. Þetta kom fram á aðalfundi samtakanna, en þar var kynnt ný skýrsla sem Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík vann fyrir SVÞ, Mikilvægi þjónustugeirans fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Í skýrslunni kemur fram að með útvistun verkefna væri hægt að draga úr útgjöldum hins opinbera, bæta gæði verkefna og efla einkageirann í sömu andrá.

 

Í nýrri könnun IMG Gallup sem gerð var samhliða vinnslu skýrslunnar kemur fram að 70% landsmanna telja starfsmenn einkafyrirtækja veita betri þjónustu en starfsmenn í opinberum fyrirtækjum. Í könnuninni var einnig spurt hvort fela ætti einkaaðilum ákveðinn hluta af opinberri þjónustu, t.d. heilbrigðisþjónustu, en flestir eða 44% svöruðu því til að fela ætti einkaaðilum meiri hluta heilbrigðisþjónustunnar en gert er í dag. Sjá nánar vef SVÞ.