Alvarlegar athugasemdir við breytingar á samkeppnislögum

Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt harðlega frumvarp til breytinga á samkeppnislögum en það er nú til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Í tilefni af þessari gagnrýni SA hefur forstjóri Samkeppniseftirlitsins m.a. sagt í grein í Morgunblaðinu að mikilvægt væri að samtök fyrirtækja séu ekki skjól eða vettvangur samkeppnislagabrota og að þeir sem eru í forsvari fyrir samtökum í atvinnulífinu ættu að fagna því að ábyrgð þeirra sem vilja misnota slíkan samstarfsvettvang sé skýr og afdráttarlaus. SA taka undir þetta sjónarmið en benda jafnframt á að gæta þurfi meðalhófs við ákvöðrun refsiheimilda. Sú séríslenska útgáfa af Evrópureglum sem frumvarpið gerir ráð fyrir skiptir ekki sköpum í þessu efni og er bæði óþörf og skaðleg. Hafa má það til marks að samsvarandi ábyrgðarreglur hafa ekki verið teknar upp í ný samkeppnislög Dana og Norðmanna. 

 

Fyrningarfrestur verði fimm ár

Athugasemdir SA beinast einnig að því að einfalt gáleysi virðist nægja til sakfellingar einstaklinga sem ákærðir eru fyrir brot á samkeppnislögum. Að mati SA ber að einskorða refsingar einstaklinga við að huglægt skilyrði um ásetning eða stórkostlegt gáleysi sé uppfyllt. Þá teja SA að viðurlög við brotum á samkeppnislögum eigi að meginstefnu til að vera í formi sekta. Einnig er það mat SA að fyrningarfrestur vegna brota á samkeppnislögum eigi að vera 5 ár eins og í nágrannalöndum okkar, bæði fyrir lögaðila og einstaklinga. Verði í því sambandi að horfa til þess að það geti verið vandkvæðum bundið fyrir einstaklinga sem bornir eru sökum um samkeppnislagabrot að sanna sakleysi sitt mörgum árum eftir að meint brot hafa verið framin, þegar þeir eru e.t.v. hættir störfum fyrir viðkomandi fyrirtæki og hafa engan aðgang að gögnum þess.

 

Sjá umsögn SA

 

Sjá einnig umfjöllun SA og SFF um viðurlög við efnahagsbrotum