Ákvörðun Seðlabankans veldur vonbrigðum

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að ákvörðun Seðlabankans um að hækka stýrivexti í 14% valdi miklum vonbrigðum. Hann hafi ekki haft miklar væntingar en ákvörðun Seðlabankans um að hækka stýrivextina um 0,5 prósentustig sé ekki rétt. Bankinn hafi í það minnsta átt að halda vöxtunum óbreyttum að sinni.  „Afleiðingarnar af þessari ákvörðun eru fyrst og fremst þær að bankinn er að gera hlutina erfiðari þegar það fer að hægjast um í efnahagslífinu á seinni hluta ársins,” segir Vilhjálmur og bætir við: „Þegar samdráttarferlið kemur þyrfti bankinn að vera að komast í vaxtalækkunarferli en ekki hækka stýrivextina.”

 

Vilhjálmur segir Seðlabankann væntanlega þurfa að íhuga hækkun vaxta einhvern tíman í ársbyrjun 2008 og sitji þá uppi með of háa vexti og of hátt gengi. Stjórn peningamála verði þá ómarkvissari og skili ekki sama árangri og hún myndi gera ef bankinn myndi skynja hagsveifluna og hvernig hún er að þróast. „Verðbólgan hefur dottið mun meira niður en við mátti búast eftir samkomulag ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins í júní. Mér sýnist að verðbólguvæntingar fyrirtækjanna séu komnar á allt annað plan en þær voru áður.”