Áhyggjur af þróun verðlags – ályktun stjórnar SA

7. desember 2004

 

Ályktun stjórnar Samtaka atvinnulífsins

Áhyggjur af þróun verðlags

 

Stjórn Samtaka atvinnulífsins lýsir áhyggjum af verðbólgu og gengi krónunnar og horfum um þróunina á næstunni. Seðlabanki Íslands kynnti þann 2. desember sl. spá sína um að verðbólga yrði 3,5% að jafnaði á næstu tveimur árum og verði komin yfir 4% í árslok 2006 ef ekki verður spornað gegn þeirri þróun. Sjötta hækkun stýrivaxta bankans á þessu ári, nú um 1%, ásamt öðrum peningamálaaðgerðum, hefur leitt til 5% hækkunar á gengi krónunnar á nokkrum dögum. Það jafngildir 15 milljarða tekjulækkun útflutningsgreina á ársgrundvelli. Við þetta hafa rekstrarskilyrði  fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni versnað til muna, en á sama tíma eru lagðar sértækar álögur á þessi sömu fyrirtæki.

 

Aðhald ríkisfjármála ekki nægjanlegt

Efnahagsspár benda eindregið til þess að eftirspurn eftir vöru og þjónustu aukist svo mikið á næstu misserum að verulegur þrýstingur myndist á verðlag. Spáð er 11% aukningu þjóðar-útgjalda á næsta ári og mesta hagvexti frá ofþensluárinu 1987. Horfur eru á að svokölluð framleiðsluspenna, sem er misvægið milli framboðs og eftirspurnar á vöru og þjónustumarkaði, muni aukast jafnt og þétt á næstu tveimur árum og valda sívaxandi verðbólgu. Að mati SA verður aðhald ríkisfjármála ekki nægjanlegt til að draga úr þenslunni og verðbólguþrýstingnum, enda verður spenna í efnahagslífinu meiri en árin 1999 og 2000 og aðhald ríkisfjármála minna. Það er því enn mikilvægara en áður að markmið fjárlaga náist í það minnsta, en það gerist ekki nema að boðuðum aðhaldsaðgerðum verði framfylgt og launastefna ríkisins verði innan þess kostnaðarramma sem samningar á almennum vinnumarkaði hafa markað. 

 

Óumdeilt er að á undanförnum árum hafa laun hjá hinu opinbera hækkað langt umfram það sem almennur vinnumarkaður hefur haft tök á að standa undir. Þessi þróun er einn helsti veikleiki íslenskrar efnahagsstjórnar og  verður henni að linna. Við þessar aðstæður eru almennar skattalækkanir til þess fallnar að jafna kaupmáttarþróun á almennum og opinberum vinnumarkaði og ættu að geta haft áhrif til að skapa sátt á vinnumarkaði og hamla gegn skaðlegum launahækkunum sem engin innistæða er fyrir.

 

Ýtt undir þenslu og verðbólgu

Á sama tíma og fjárlög eru ekki nægilega aðhaldssöm miðað við aðstæður og boðaðar eru enn frekari vaxtahækkanir, sem væntanlega hækkar enn gengi krónunnar, er ríkið í skefja-lausri samkeppni við banka og sparisjóði á lánamarkaði með starfsemi Íbúðalánasjóðs. Á þessu sviði ýtir opinber sjóður undir enn frekari aukningu útlána, einkaneyslu og verðbólgu. Íbúðalánasjóður greiðir hvorki tekjuskatt né ábyrgðargjald til ríkissjóðs. Staða sjóðsins í samkeppni á íbúðalánamarkaði er því í andstöðu við allar hugmyndir um heilbrigða samkeppni og aðkomu ríkisins að samkeppnisrekstri.

 

Samtök atvinnulífsins hvetja til þess að afgangur af fjárlögum verði aukinn á næstu árum frá því sem nú er ráðgert svo góðum hagvexti þurfi ekki að fylgja eins mikil hækkun vaxta og gengis krónunnar. Verulega er farið að sverfa að fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni.