Áhugaverður fyrirlestur Dr. Eagan um umhverfismál

Yfirskrift erindis Dr. Eagan hjá SA var: Viltu bæta samkeppnisstöðuna?  Dr. Eagan fjallaði um hönnun, framleiðslu og sjálfbæra þróun, en meginfræðasvið hans er vistfræði í iðnaði og nýting sjálfbærrar þróunar við hönnun og framleiðslu. Auk þess fjallaði hann um samþættingu gæða- og umhverfissjónarmiða við hönnun. Dr. Eagan hefur unnið náið með fyrirtækjum í raftækjaframleiðslu og eins með fyrirtækjum á heilbrigðissviði. Hann er eftirsóttur fyrirlesari og hefur haldið námskeið um þessi mál víða um heim. Rannsóknarverkefni Dr. Eagan tengjast mörg líftímagreiningu vöru og iðnaðarferla og tengingu þeirra við sjálfbæra þróun.

 

Dr.Eagan

 

Grænt samkeppnisforskot

Dr. Eagan kom víða við en hann lagði ríka áherslu á að fyrirtæki tækju tillit til umhverfismála í vöruhönnun sinni og við framleiðslu. Hugsa ætti raunar um umhverfisáhrif á öllum stigum í rekstri fyrirtækja – það væri ekki æskilegt að láta einstökum deildum það eftir að hugsa um umhverfismálin. Eagan segir nauðsynlegt að fyrirtæki leggi meiri áherslu á að gera framleiðslu sína umhverfisvænni, það geti raunar skapað þeim samkeppnisforskot. Benti hann t.d. á að General Electric, hefðu tvöfaldað rannsóknarfé sitt til umhverfismála og framleiðsla þeirra á vistvænum vörum hefði jafnframt tvöfaldast, og næmi verðmæti þeirra nú 20 milljörðum dollara árlega.

 

Fyrirtækjum umbunað fyrir að standa sig vel

Lloyd EaganÁhugaverðar umræður spunnust eftir fyrirlestur Dr. Eagan og tók eiginkona hans, Lloyd L. Eagan, m.a. þátt í þeim, en hún er forstjóri auðlindadeildar fylkisstjórnarinnar í Wisconsin. Sagði hún meðal annars frá Green Tier verkefninu í Wisconsin, en það snýst um að yfirvöld og fyrirtæki vinni saman að umhverfismálum og er þeim fyrirtækjum sem standa sig vel umbunað með minna eftirliti. Áhersla er lögð á samvinnu í stað hárra eftirlitsgjalda og stjórnvaldssekta. Meginmarkmiðið með verkefninu er að tryggja að bæði efnahagur fyrirtækjanna og umhverfið blómstri. Lloyd Eagan hefur verið í stjórnunarstöðum við umhverfisvernd á vegum hins opinbera í Wisconsin í meira en 20 ár.

 

Kynningu Dr. Eagan má sjá hér.

 

Upplýsingar um Green Tier verkefnið má finna hér.