Ábyrgt atvinnulíf

Grein Ara Edwald, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu þriðjudaginn 28. september 2004:

 

Ábyrgt atvinnulíf

 

Viðskiptablað Morgunblaðsins birti nýlega viðtal við Michael Treschow, formann sænsku samtaka atvinnulífsins. Í kjölfarið hefur leiðarahöfundur blaðsins vitnað til orða Treschows um skaðsemi hringamyndunar í sænsku viðskiptalífi og hefur blaðið hvatt Samtök atvinnulífsins til þess að gera umrædd sjónarmið Treschows að sínum og til að taka höndum saman við stjórnvöld til að auka traust almennings og trú á því að í íslensku atvinnulífi sé lífleg samkeppni og hart tekið á hringamyndun og einokunartilburðum.

 

Tillögur SA

Undanfarin ár hafa SA lagt mikla vinnu í skýrslugerð og vandaðar tillögur um hvernig bæta megi samkeppnislögin og gera þau skilvirkari, auk stuðnings við aðra útgáfu og ráðstefnuhald á þessu sviði. Rauður þráður í öllum málflutningi SA er að tilgangur samkeppniseftirlits sé að vinna gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu, verðsamráði og öðru ólögmætu atferli, en ekki að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og hamla gegn hagræðingu. SA hafa einnig gert athugasemdir við stjórnsýsluþátt samkeppnislaganna og við framkvæmd rannsóknaraðgerða Samkeppnisstofnunar. Ánægjulegt er að sjá að sumar þessara tillagna er nú að finna í tillögum nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskipta-umhverfi, eins og tillöguna um skilvirkara skipulag samkeppnismála. Almennt hafa SA sagt margar tillögur nefndarinnar til bóta, enda hefur viðskiptaráðherra sagt í ræðu að viðbrögð SA við skýrslunni hefðu verið jákvæð en varfærin.

 

Að efla traust til atvinnulífsins

Í öðrum hluta fyrrnefnds viðtals Morgunblaðsins við Treschow, þar sem rætt er um reglusmíð um stjórnarhætti fyrirtækja og ákvarðanatöku um laun æðstu stjórnenda, segist Treschow vona að aðallega verði um það að ræða að viðskiptalífið sjái sjálft um að setja sér reglur fremur en að hlutirnir verði settir í lög. Hér á landi hafa SA, ásamt með Verslunarráði Íslands og Kauphöll Íslands, kynnt leiðbeiningar um starfshætti fyrirtækja, m.a. með það að markmiði að tryggja traust á fyrirtækjum og atvinnurekstri almennt. Í viðtalinu við Treschow er jafnframt fjallað um svokallaða „trausts-ráðstefnu“ sænsku samtaka atvinnulífsins fyrr á þessu ári. Erlendur gestur aðalfundar SA í maí síðastliðnum var einmitt Göran Trogen, framkvæmdastjóri hjá sænsku samtökum atvinnulífsins, sem hafði veg og vanda af umræddri ráðstefnu. SA buðu Trogen hingað til þess að fræðast um viðamikið starf sænsku samtakanna við að efla traust almennings á atvinnulífinu, í því skyni að hægt væri að draga lærdóm af því hér. Í samtölum Treschows við forystumenn SA hefur hann lagt áherslu á að viðskiptalífið sýni frumkvæði í þessum efnum, til að koma í veg fyrir óþarfa lagasetningu. Enda séu reglur viðskiptalífsins líklegri til að geta tekið sveigjanlegt tillit til mismunandi aðstæðna í stórum og smáum fyrirtækjum, skráðum fyrirtækjum og fjölskyldurekstri. Ýmis atriði sem snúa að stjórnarháttum fyrirtækja eiga heima í lögum. Það verður þó að segjast eins og er að SA telja fram komnar tillögur um lögfestingu stjórnarhátta ganga fulllangt um sum atriði og ekki síður að þær nái til of smárra fyrirtækja, sem rekin eru sem einkahlutafélög.

 

Áherslur í Svíþjóð

Auðvelt er að nálgast áherslur sænsku samtaka atvinnulífsins í samkeppnismálunum á vef samtakanna, www.svensktnaringsliv.se en þar er m.a. að finna bæklinginn Karteller, konkurrenslag, EU-regler.  Þar er sænska hugtakið „kartell“, sem hér á landi virðist í blaðaumræðu hafa verið þýtt sem „hringamyndun“, skilgreint sem ólögmætt samkomulag um verð, tilboðsgerð og markaðsskiptingu. Í inngangi er bent á að samkeppni þrífist best á markaði með eins fáum tilbúnum hindrunum og mögulegt er. Sænsku samtök atvinnulífsins telji því mikilvægt að standa vörð gegn ónauðsynlegum reglum. Ekki megi heldur leyfa fyrirtækjunum að hindra samkeppni. Samkeppnisreglurnar eigi að vera skarpar og eftirlitið skilvirkt, en ekki að stýra því í smáatriðum hvað fyrirtækin aðhafast. Ólögmætt samráð og uppskipting markaðar „karteller” sé óverjandi. Þar eigi að sporna fast við fótum. Samtökin styðji því viðleitni til þess. Samhliða benda sænsku samtök atvinnulífsins á að ekki sé bannað að fyrirtæki séu markaðsráðandi. Það sem er bannað sé að misnota þá aðstöðu. Samkeppnishæf og vaxandi fyrirtæki hafi afgerandi þýðingu fyrir efnahagslífið, störfin og velferðina. Í þessu sambandi vekur athygli að við breytingar á sænsku samkeppnislögunum á liðnu vori vegna innleiðingar nýju Evrópureglnanna var því hafnað að heimila uppskiptingu fyrirtækja eins og nefndin um íslenskt viðskiptaumhverfi leggur til að gert verði hér á landi.

 

Að lokum skal það fullyrt að áherslur SA í umfjöllun sinni um samkeppnismál og stjórnarhætti fyrirtækja hafa í öllum megindráttum verið þær nákvæmlega sömu og systursamtaka SA í Svíþjóð. Það er sömuleiðis að sjálfsögðu markmið SA að vinna með stjórnvöldum að jákvæðri þróun mála á þessu sviði, þótt meiningar geti á stundum verið mismunandi um hvaða leiðir eru heppilegastar. Með því hugarfari taka SA þátt í skoðanaskiptum um útfærslu þeirra tillagna sem nú liggja fyrir.