15% tekjuskattur, afnám stimpilgjalda, afnám vörugjalda...

Í tengslum við aðalfund Samtaka atvinnulífsins í maí árið 2001 kom út ítarleg skýrsla skattahóps samtakanna, Sam-keppnishæft skattaumhverfi. Ástæða er til að minna á skýrsluna í tengslum við þær umræður sem nú eiga sér stað um breytingar á skattkerfinu, sem og á stefnumörkun Samtaka atvinnulífsins og fleiri samtaka í atvinnulífinu frá í vor á sviði vörugjalda og skattheimtu á matvælum.

 

15% tekjuskattur

Meðal þess sem skattahópurinn lagði til var að tekjuskattur fyrirtækja yrði lækkaður úr 30% í 15%. Síðar á árinu var skatthlutfallið síðan lækkað í 18% og var það mikið framfara-skref. Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í maí sl. sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra að ef við vildum halda forystuhlut okkar á sviði skattamála ættum við að stefna að því að skattar á fyrirtæki yrðu ekki yfir 15% í framtíðinni, og var sú yfirlýsing mikið fagnaðarefni fyrir atvinnulífið.

 

Afnám eignarskatta og stimpilgjalda

Þá lagði skattahópurinn þunga áherslu á afnám bæði eignarskatta og stimpilgjalda, en þau skattform eru nánast úrelt í helstu viðskiptalöndum. Síðan þá hefur eignarskattur verið lækkaður um helming og fyrirheit gefin um afnám hans, en stimpilgjöldin standa eftir. Er þar á ferðinni úrelt og íþyngjandi skattform sem að mestu leyti hefur verið afnumið í löndum í kringum okkur, og þar sem gjaldið er enn innheimt er það mun lægra en hér. Skattur þessi skekkir því samkeppnisstöðu minni fyrirtækja sem ekki hafa tök á að taka lán erlendis frá, bæði við erlend fyrirtæki og stærri fyrirtæki hér heima. Þá þykir óeðlilegt að einstaklingar séu að greiða endurtekinn skatt af lánum og skuldbreytingum vegna sömu eigna.

 

Vörugjöld, skattlagning matvæla

Þá fjallar skýrsla skattahóps um vörugjöld, starfsleyfisgjöld, ýmis smærri gjöld og skatta, frádráttarheimildir o.fl. Síðastliðið vor skoruðu síðan Samtök atvinnulífsins og fleiri samtök fyrirtækja sem framleiða, flytja inn, dreifa og selja matvæli á ríkisstjórnina að setja öll matvæli í sama þrep virðisauka-skatts. Að mati samtakanna væri æskilegt að afnema vörugjöld af matvælum, skattleggja öll matvæli í sama þrepi og lækka virðisaukaskatt á matvæli í t.d. 12%. Þetta myndi hafa í för með sér jafn mikla tekjulækkun fyrir ríkissjóð og helmings lækkun lægra þreps virðisaukaskatts. Rökin fyrir leið atvinnuvegasamtakanna eru þau að með slíkum breytingum yrðu alvarlegir agnúar sniðnir af skattkerfinu og það fært nær því sem tíðkast hjá þjóðum sem við berum okkur saman við, en þarna er á ferðinni úrelt neyslustýring og um margt handahófskennd skattlagning. Þá er líklegt að slík útfærsla kæmi sér jafn vel fyrir tekjulægri hópa og að lækka einungis vörurnar sem nú eru í lægra þrepinu. Ítarleg samantekt um þessa stefnumörkun var birt á vef Samtaka atvinnulífsins í júní sl.